Viðskipti innlent

Risasala Eimskips vestan hafs

Eimskip hefur lokið sölu á 23 kæli- og frystigeymslum í Bandaríkjunum og Kanada fyrir 385 milljónir kanadadollara eða um 24 milljarða króna. Andvirði sölunnar verður nýtt til að greiða niður skuldir vegna yfirtöku á kanadíska félaginu Atlas Cold Storage í nóvember 2006.

 

Eimskip hefur undanfarið ár yfirtekið bæði Atlas, sem var annað stærsta kæli- og frystigeymslufyrirtækið í Norður Ameríku og Versacold, sem var það þriðja stærsta. Eimskip hefur því náð leiðandi stöðu í geymslu kæli- og frystivara með hátt í 200 kæli- og frystigeymslum í fimm heimsálfum.

 

Velta Atlas Cold Storage og Versacold er um 1.200 milljónir kanadadollara á ári eða um 74 milljarðar króna. Samtals reka félögin um 120 kæli- og frystigeymslur í Bandaríkjunum, Kanada, Argentínu, Ástralíu og Nýja Sjálandi og hjá þeim starfa um 8.500 manns.

 

"Við teljum sölu fasteigna Atlas vera mjög mikilvægan áfanga í frekari uppbyggingu kæli- og frystigeymslurekstrar Atlas og Versacold. Rekstur félaganna gengur vel og með sölu fasteignanna geta stjórnendur félagsins einbeitt sér að frekari uppbyggingu og þróun á sviði geymslu og flutninga á kæli- og frystivörum," segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips. "Undanfarin misseri hefur Eimskip byggt upp alþjóðlegt flutninganet á sviði hitastýrðra flutninga og er nú langstærsta kæli- og frystigeymslufyrirtækið með um 13%- 15% markaðshlutdeild á heimsvísu.

 

Að auki er verðmæti fasteignanna yfir væntingum okkar sem er mjög jákvætt miðað við núverandi stöðu á alþjóðlegum lánamörkuðum. Við höfum staðið við markmið okkar um að greiða allar skuldir vegna yfirtöku Atlas Cold Storage fyrir um ári síðan. "






Fleiri fréttir

Sjá meira


×