Viðskipti innlent

Tölvuleikirnir teknir í tollinum

Guðjón markaðsstjóri útskýrir fyrir gestum að sérútgáfan af Halo 3 muni ekki koma í hús um kvöldið eins og áætlað var, vegna tollavandræða.
Guðjón markaðsstjóri útskýrir fyrir gestum að sérútgáfan af Halo 3 muni ekki koma í hús um kvöldið eins og áætlað var, vegna tollavandræða. MYND/salvar

Miðnæturopnunin í BT gekk ekki að öllu leyti vel og er tollinum á Keflavíkurflugvelli þar helst um að kenna. Innkaupastjóri BT hafði farið til London fyrr um daginn til að sækja tæplega sjötíu eintök af sérútgáfu leiksins (e. limited edition), sem ekki tókst að senda með pósti til Íslands í tæka tíð. Leikina átti að selja um leið og innkaupastjórinn kæmi í hús, enda margir búnir að panta eintak. Það fór ekki betur en svo að maðurinn var stöðvaður í tollinum og leikirnir gerðir upptækir.

„Við vorum búnir að fara yfir þetta allt með tollinum í Reykjavík og í Keflavík áður en maðurinn fór af stað, en svo kom annað í ljós þegar hann kom aftur heim. Hann komst ekki í gegnum tollinn," segir Guðjón Guðjónsson, markaðsstjóri BT. Hann segir málið hafa verið leyst daginn eftir, þegar tollurinn sendi töskurnar á Reykjavíkurflugvöll þar sem þær voru sóttar.

„Það var ömurlegt að þurfa að útskýra fyrir þeim sem mættu á miðnæturopnunina að þeir gætu ekki fengið leikinn í kvöld, en sem betur fer fór enginn reiður í burtu. Við sendum öllum SMS um leið og leikurinn var kominn í hús daginn eftir, og létum vita að þeir gætu sótt sitt eintak." Guðjón segir engar útskýringar hafa fengist frá tollinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×