Viðskipti innlent

Exista græddi 8 milljarða á sænskum bankaslag

Áform SEB bankans sænska um að kaupa 20% hlut sænska ríkisins í Nordea leiddi til þess að Sampo Group í Finnlandi hækkaði um fjögur prósent í dag og skilaði sú hækkun sér til Íslands. Hlutur Exista í Sampo hækkaði um 8,3 milljarða króna að markaðsvirði og hækkaði félagið um 1,89% í Kauphöllinni. Þess ber þó að geta að Exista færir hlut sinn í Sampo með hlutdeildaraðferð.

Greining Kaupþings banka fjallar um málið í Hálf fimm fréttum sínum. Þar segir m.a. að markaðsvirði Nordea, stærsta fjármálafyrirtækis Norðurlanda, jókst um 200 milljarða króna í dag vegna fréttar sænska viðskiptablaðsins Dagens Industri um að SEB ætli sér að leggja fram tilboð í fimmtungshlut sænska ríkisins, stærsta hluthafans í Nordea, á verulegu yfirverði. Sænska ríkið vinnur að undirbúningi að sölu á hlutnum.

"Þá dró það heldur ekki úr fjörinu að Sampo Group í Finnlandi, sem er annar stærsti hluthafinn í Nordea og að fimmtungshluta í eigu Exista, jók eignarhlut sinn í Nordea upp í sjö prósent. Sá hlutur er metinn á 190 milljarða króna," segir í Hálf fimm fréttum.

Samkvæmt frétt DI ætlar SEB að bjóða 138 krónur fyrir hvern hlut sem er nærri þriðjungi hærra verð en sem nam dagslokagengi Nordea í gær. Ef SEB næði undir sig ráðandi hlut í Nordea þá myndi bankinn þar með leggja undir sig 1.100 útibú auk þess að fá til sín um tíu milljón viðskiptavini í Skandinavíu, Rússlandi, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum.

Bréf í Nordea hækkuðu mest um 16% innan dagsins en enduðu í um átta prósenta hækkun sem er sú mesta á einum degi í meira en fimm ár. Hlutabréf í SEB hækkuðu einnig hressilega í dag eða um 5,6%.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×