Viðskipti innlent

Hannesi Smárasyni líkt við „flugdólg“

Hannes Smárason er forstjóri FL Group.
Hannes Smárason er forstjóri FL Group. MYND/Hörður Sveinsson

Hannes Smárason forstjóri FL Group þrýstir á AMR móðurfélag American Airlines að auka verðmæti félagsins sem fallið hefur um 50 prósent frá því í byrjun árs. Í bréfi sem hann sendi AMR og birt er á vefsíðu Wall Street Journal í dag segir hann möguleikana meðal annars liggja í að aðskilja vildarklúbb félagsins AAdvantage frá AMR.

Ekki sé nóg að bregðast við lækkun hlutabréfa með því að kenna háum eldsneytiskostnaði og samkeppni um.

Í bréfinu segir að lækkun hlutabréfa hafi kostað hluthafa um fimm milljarða bandaríkjadala.

Hannes Smárason er óstýrlátur farþegi

Í undirfyrirsögn greinarinnar á Wall Street Journal segir að AMR sé með óstýrlátan farþega um borð.

Í bréfinu segir Hannes að leitað hafi verið til stjórnenda fyrirtækisins eftir upplýsingum um aðgerðir til að auka virði félagsins. Þar sem engin áætlun í því skyni virðist vera í gangi sjái hann sig knúinn til að skrifa yfirstjórninni beint. Nú sé tíminn til að bregðast við.

Tekið er fram að FL Group hafi mikla reynslu af því að auka virði flugfélaga á borð við easyJet, Sterling Airlines, Icelandair og Finnair.

Eftir nána skoðun á AMR í nokkurn tíma leggi FL Group til að AMR komi ákveðnum eignum í verð. Þannig væri hægt að draga úr skuldum og skila fjármunum til hluthafa.

„Við trúum því að ekki megi nokkurn tíma missa miðað við horfur á markaði," segir Hannes í bréfinu.

Í grein Wall Street Journal er vitnað í viðtal þar sem Hannes mælir með að fyrirtækið selji viðhaldseiningar og losi sig auk þess við innanlandsfélagið American Eagle.

FL Group á 8,3 prósent hlut í AMR og er því einn aðalhluthafa í félagsins.

Talsmaður AMR sagði að fyrritækið taki ábendingar hluthafa ávallt til greina, en vildi ekki tjá sig um samskipti við FL Group.

Í undirlagi bréfsins býður Hannes fram aðstoð FL Group við að koma hugmyndunum í framkvæmd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×