Viðskipti innlent

Samþykkt að breyta Sparisjóði Svarfdæla í hlutafélag

Samþykkt var á fundi stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarfdæla í gærkvöld að breyta sjóðnum í hlutafélag. Af 120 stofnfjáreigendum greiddu 102 atkvæði með tillögunni en tveir voru á móti eftir því sem segir í tilkynningu.

Samþykktin þýðir að núverandi stofnfjáreigendur fá hlutabréf í hinu nýja félagi í stað stofnfjárhlutar. Þá verður komið á fót sjálfseignarstofnun sem aftur verður hluthafi í sparisjóðnum. Eignir og arður þeirrar stofnunar verða bundin líknar- og menningarmálum á starfssvæði sjóðsins í Dalvíkurbyggð og Hrísey. Jafnframt var samþykkt á fundinum í gær að auka stofnfé sparisjóðsins um 500 milljónir króna.

Næstu skref í málinu eru að halda áfram undirbúningi að hlutafélagvæðingu og verða endalegar tillögur þar um lagðar fram á fundi stofnfjáreigenda. Haft er eftir Jóhanni Antonssyni, stjórarformanni Sparisjóðs Svarfdæla, að hann eigi von á því að breytingarnar gangi í gegn á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×