Viðskipti innlent

Erlend lán heimilanna tvöfaldast á einu ári

Erlend lán heimilanna hafa ríflega tvöfaldast á undanförnu ári eftir því sem segir í Morgunkorni greiningardeildar Glitnis. Þar segir enn fremur að nú sé svo komið að tæplega 14 prósent skulda heimilanna við innlánsstofnanir séu tengdar erlendum myntum.

Samkvæmt nýjum tölum Seðlabanka Íslands námu útlán viðskiptabanka og sparisjóða til heimila alls tæpum 788 milljörðum króna í lok ágúst. Þar af voru gengisbundin útlán 108 milljarðar en 571 milljarðar voru í formi verðtryggðra útlána. Bendir greiningardeildin á að fimm milljarðar séu í formi gengistryggðra yfirdráttarlána en sá liður hefur rúmlega tífaldast á undangengnum 12 mánuðum.

Greiningardeildin segir enn fremur að gengisbundin útlán hafi hækkað um 107 prósent frá ágúst í fyrra, reiknað á föstu gengi. Á sama tíma varð 17 prósent aukning í verðtryggðum útlánum, reiknað á föstu verðlagi, en 6 prósenta samdráttur varð hins vegar í óverðtryggðum lánum í krónum.

Segir greiningardeildin þessa þróun til vitnis um að heimilin flýi innlenda vexti og velji þannig fremur að taka þá áhættu sem tengist gengissveiflum. Þessa þróun megi einnig sjá í öðrum hávaxtalöndum. Þessi þróun minnki áhrif seðlabanka í heimalandinu á neyslugetu heimilanna en eykur áhrif af gengisþróun og alþjóðlegu vaxtastigi á hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×