Viðskipti innlent

Samþykkt að auka hlutafé vegna kaupa á Tryggingamiðstöðinni

MYND/GVA

Hluthafafundur FL Group samþykkti í morgun að heimila stjórn félagsins að gefa út nýja hluti í félaginu upp á ríflega 1,3 milljarða króna að nafnvirði til þess að fjármagna kaup á hlutum í Tryggingamiðstöðinni.

Eykst hlutafé að nafnvirði úr 7,9 milljörðum í 9,2 milljarða. Fram kemur í tilkynningu til Kauphallar Íslands að hluthafar í FL Group hafi ekki forgangsrétt að hinum nýju hlutum og verður það í höndum stjórnar að ákveða sölugengi hlutanna, áskriftarfrest og greiðslukjör. Heimilt verður að greiða hina nýju hluti með hlutum í Tryggingamiðstöðinni.

Stjórn FL Group hélt fund í framhaldi af hluthafafundinum þar sem samþykkt var að gefa út ríflega 973 þúsund hluti til að ganga frá kaupum í Tryggingamiðstöðinni. Með því fellur fyrirvari um kaup á hlutum í Tryggingamiðstöðinni niður.

Á hluthafafundinum í morgun var einnig samþykkt að auka hlutafé FL Group um allt að tvo milljarða að nafnverði. Það skiptist þannig að hluthafar hafa ekki forgangsrétt að einum og hálfum milljarði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×