Viðskipti innlent

Baugur eykur hlut sinn í Debenhams

Baugur Group og fjárfestingafélagið Unity hafa í formi framvirkra samninga tryggt sér 13,5% í bresku stórverslanakeðjunni Debenhams. Baugur fer með 6,7% en Unity Investment, sem er í eigu Baugs, FL Group og Kevins Stanford, á um 6,8%.

Greinign Kaupþings banka fjallar um málið í Hálf fimm fréttum sínum. Þar segir að félögin hafa frá í sumarbyrjun verið að bæta við eignarhlut sinn í breska félaginu en fyrrnefndur hlutur er metinn á tæpa fjórtán milljarða króna. Debenhams, sem rekur 126 verslanir á Bretlandseyjum, hefur ekki átt sjö dagana sæla á breskum smásölumarkaði upp á síðkastið. Félagið reið ekki feitum hesti frá jólaverslun síðasta árs og þá reyndist rigningasumarið mikla í Bretlandi félaginu þungt í skauti. Debenhams varð að gefa mikla afslætti til að losna við birgðir og missti markaðshlutdeild.

Félagið gaf út sína þriðju neikvæðu afkomuviðvörun í vor, aðeins ellefu mánuðum eftir að það var skráð aftur á hlutabréfamarkað. Skörp lækkun eykur líkurnar á yfirtöku. Gengi hlutabréfa í Debenhams hefur fallið um helming frá áramótum og stendur í 95 pensum á hlut. Skörp lækkun sem þessi eykur líkurnar á því að fjárfestar vilji komast yfir Debenhams og beinast þar sjónir manna meðal annars að Baugi sem ásamt öðrum fjárfestum stóðu að yfirtöku á House of Fraser, annarri vöruhúsakeðju, fyrir um 425 milljónir punda í fyrrahaust.

Baugur lýsti því yfir í tilkynningu til Kauphallarinnar í Lundúnum í júlí, að félagið hygðist ekki leggja fram yfirtökutilboð í Debenhams. Vegna þeirrar yfirlýsingar er Baugi og tengdum aðilum óheimilt að leggja fram tilboð í bresku verslanakeðjunað fyrr en í fyrsta lagi í janúar ef áhugi verður þá fyrir hendi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×