Viðskipti innlent

Hætta við þráðlaus borgarnet

Borgaryfirvöld í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum hafa lent í vandræðum með að tengja þráðlausu sendana, sem setja á upp í borginni, við rafmagn.
Borgaryfirvöld í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum hafa lent í vandræðum með að tengja þráðlausu sendana, sem setja á upp í borginni, við rafmagn.

Borgaryfirvöld víða um Bandaríkin hafa hætt við áætlanir sínar um að þekja borgir sínar með þráðlausu neti. Í Houston, Chicago, San Francisco og fleiri borgum hafa öll áform um þráðlaust borgarnet verið lögð á hilluna.

Samkvæmt fréttavef Reuters hefur verið hætt við flest verkefnin vegna þess hversu dýr og flókin þau voru orðin. Í sumum borgum fannst engin hagkvæm leið til þess að dreifa þráðlausum sendum um borgina og annars staðar gekk ekki að semja við verktaka. Borgaryfirvöld í St. Louis hafa ekki enn komist að því hvernig eigi að rafvæða þráðlausa senda sem festir verða á 1.700 ljósastaura, þegar ljósin eru slökkt.

Í flestum borgunum átti að vera ókeypis eða mjög ódýrt að tengjast þráðlausa netinu, og hefur kostnaðurinn sem fylgir því staðið þessum framkvæmdum fyrir þrifum. Tilkoma þriðju kynslóðar farsímanets, sem gerir fólki meðal annars kleift að tengjast internetinu hvar sem er í gegnum GSM-senda, hefur heldur ekki hjálpað.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir engin áform uppi hjá Reykjavíkurborg um að koma upp þráðlausu neti um alla borgina. Hugmyndir um slíkt hafi verið uppi hjá Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, fyrir borgarstjórnarkosningar, en enginn flokkur hafi tekið málið upp á sína arma.

„Annars er miðborgin mjög vel tengd hjá okkur, það er hægt að komast í þráðlaust net á nánast hverju einasta kaffihúsi," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×