Viðskipti innlent

Spáir 2,6% hagvexti

Hagvöxtur í ár verður 2,6% að mati greiningar Glitnis. Það er nokkru minni vöxtur en verið hefur á undanförnum árum og nægjanlega hægur til að ná hagkerfinu að hluta niður úr því þensluástandi sem það er í.

Fjárfesting atvinnuveganna er þegar farin að dragast saman vegna minni stóriðjuframkvæmda og verulega hefur dregið úr vexti neyslu heimilanna þó að kaupmáttur fari enn vaxandi og húsnæðisverð hækkandi.

Samdráttur verður í ár í þjóðarútgjöldum en samhliða dregur hratt úr viðskiptahallanum og reiknum við með því að hann verði um 15% af landsframleiðslu í ár. Verðbólgan mun hins vegar aukast það sem eftir lifir árs en áhrifa lækkunar gengis krónunnar undanfarið mun verða vart í verðbólgumælingum næstu mánaða.

Reikna má með því að verðbólgan verði ríflega 5% um næstu áramót en hún náði lágmarki á árinu í 3,4% í ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×