Sport

Hatton og Mayweather skiptust á skotum á blaðamannafundi

Ricky Hatton í hringnum.
Ricky Hatton í hringnum. Nordic Photos / Getty Images

Þann 8. desember næstkomandi mætast þeir Floyd Mayweather og Ricky Hatton í hringnum í Las Vegas. Mikil spenna ríkir fyrir viðureigninni en í gær var haldinn blaðamannafundur þar sem kapparnir hituðu upp með nokkrum neðanbeltisskotum.

Hatton gerði til að mynda stólpagrín að þátttöku Mayweather í raunveruleikaþættinum "Dancing With the Stars" vestan hafs.

"Mér finnst það lýsandi fyrir boxstílinn hans. Floyd lætur hinn aðilann stjórna ferðinni. Það er kvenmannshlutverk," sagði Hatton.

Báðir eru þeir ósigraðir í hringnum og stefnir því í mikinn slag. Hatton er handhafi IBF-titilsins í veltivigt og stefnir á að hirða WBC-titilinn af Mayweather.

"Nú er komið að því að ég klári þetta verkefni og verði besti hnefaleikamaður heims, pund fyrir pund," sagði Hatton.

Mayweather fékk nóg af stælunum í Hatton. Hann kallaði Bretann "Vicky Fattten" og gaf í skyn að Hatton ætti betur heima í fjölbragðaglímu en hnefaleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×