Handbolti

Al­freð kemur á ó­vart fyrir kvöldið

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason er með þýska liðið í góðu færi á að komast í undanúrslit á EM en Danmörk og Frakkland gætu enn staðið í veginum.
Alfreð Gíslason er með þýska liðið í góðu færi á að komast í undanúrslit á EM en Danmörk og Frakkland gætu enn staðið í veginum. Getty/Sina Schuldt

Það er sannkallaður risaleikur á EM í handbolta í kvöld þegar liðin sem léku til úrslita á síðustu Ólympíuleikum, Danmörk og Þýskaland, mætast. Alfreð Gíslason hefur gert óvæntar breytingar á þýska hópnum fyrir leikinn.

Þjóðverjar geta með sigri í kvöld tryggt sig inn í undanúrslit og um leið látið Dani þurfa að treysta á mikla hjálp til að komast þangað.

Sagan er hins vegar ekki með Þjóðverjum sem steinlágu í úrslitaleiknum gegn Dönum á ÓL í París, 39-26, og einnig á HM fyrir ári síðan, 40-30. Sá leikur fór fram í Herning þar sem einnig verður spilað í kvöld.

Lukas Zerbe hefur spilað mjög mikið á EM en verður ekki með gegn Dönum í kvöld.Getty/Sina Schuldt

Bild greindi frá því í dag að þeir Lukas Mertens og Lukas Zerbe yrðu utan hóps hjá Alfreð í kvöld. Um er að ræða leikmenn sem hafa verið fyrsti kostur í vinstra og hægra horninu. Í þeirra stað munu Mathis Häseler og Matthes Langhoff koma inn í hópinn.

Ein skýringin gæti verið sú hve mikið þeir Zerbe og Mertens hafa spilað hingað til á mótinu. Zerbe hefur spilað 244 af 300 mínútum Þýskalands til þessa og Mertens 236 mínútur.

Hinn 23 ára gamli Langhoff er einnig sagður koma til með að styrkja varnarlínu þýska liðsins, ekki síst gegn Mathias Gidsel sem er liðsfélagi hans hjá Füchse Berlín. Häseler kemur í hægra hornið en Rune Dahmke virðist eiga að sjá um vinstra hornið allan leikinn í kvöld.

Ljóst er að Þjóðverjar eiga tvo sénsa á að komast í undanúrslitin. Tapi þeir í kvöld geta þeir tryggt sig áfram með sigri gegn Frökkum á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×