Viðskipti innlent

Risasamningur Glitnis við Vodafone

Árni Pétur Jónsson: "Glitnir er eitt öflugasta fyrirtæki landsins og með samningnum færist Vodafone nær því marki að verða stærsta fjarskiptafyrirtæki á Íslandi."
Árni Pétur Jónsson: "Glitnir er eitt öflugasta fyrirtæki landsins og með samningnum færist Vodafone nær því marki að verða stærsta fjarskiptafyrirtæki á Íslandi."

Einn stærsti fjarskiptasamningur síðari ára var undirritaður á mánudag þegar forstjóri Glitnis og forstjóri Vodafone á Íslandi undirrituðu samkomulag um kaup Glitnis á fjarskiptaþjónustu frá Vodafone næstu 5 árin. Samningurinn nær til talsíma- og farsímaþjónustu við Glitni, bæði innanlands og erlendis, auk ADSL nettenginga fyrir starfsmenn Glitnis.

 

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Vodafone, segir samninginn mikilvægan enda undirstriki hann styrkleika Vodafone sem alþjóðlegs samstarfsaðila í fjarskiptaþjónustu. "Við leggjum ríka áherslu á góða þjónustu við íslensk útrásarfyrirtæki og sú staðreynd að Vodafone starfar um allan heim tryggir okkar viðskiptavinum bestu mögulegu þjónustuna og á hagstæðu verði. Glitnir er eitt öflugasta fyrirtæki landsins og með samningnum færist Vodafone nær því marki að verða stærsta fjarskiptafyrirtæki á Íslandi," segir Árni.

 

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, segir að örugg og traust fjarskipti séu gríðarlega mikilvæg fyrir fjármálafyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. "Starfsemi Glitnis teygir sig um allan heim og það skiptir okkur miklu máli að allir okkar starfsmenn fái jafn góða þjónustu. Þessi samningur tryggir það enda er Vodafone stærsta fjarskiptafyrirtæki í heimi og hefur mikla reynslu af þjónustu við stór fyrirtæki í okkar geira," segir Lárus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×