Viðskipti innlent

Kaupþing segir að verðbólga muni hækka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Verðbólga hækkar venjulegast við útsölulok.
Verðbólga hækkar venjulegast við útsölulok. Mynd/ GVA

Greiningardeild Kaupþings spáir 1,3% hækkun á vísitölu neysluverðs. Hagstofa Íslands mun birta mælingu á vísitölunni fyrir september á morgun. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 4,2%.

Greiningadeildin segir að verðbólga mælist almennt há í september þegar útsöluáhrif fjara út. Núverandi mánuður sé engin undantekning þar á. Hækkunin í mánuðinum helgist af áhrifum útsöluloka, áframhaldandi hækkun fasteignaverðs og ásamt hækkandi matvöruverði.

Eldsneytisverð hækkar

Í Hálf-fimm fréttum Kaupþings segir að eldsneytisverð hafi hækkað á ný í mánuðinum eftir lækkun í ágúst. Talsverðar breytingar hafi verið á eldsneytisverði á síðustu vikum og gera megi ráð fyrir 3% hækkun eldsneytisverðs í mælingu Hagstofunnar. Sennilega muni eldsneytisverð valda frekari hækkunum í næstu mælingu Hagstofunnar nú í október þar sem eldsneytisverð hafi farið hækkandi á síðustu dögum.

Slæmarhorfur til skamms tíma

„Að mati Greiningardeildar er hætta á frekari verðhækkunum vegna gengislækkunar krónunnar að undanförnu. Þá er vinnumarkaðurinn yfirspenntur og allt útlit fyrir að frekari kostnaðaráhrifa muni gæta í náinni framtíð, m.a. vegna hækkandi launakostnaðar fyrirtækja. Talsverður verðbólguþrýstingur er því enn til staðar í hagkerfinu sem hefur þau áhrif að verbólguhorfur til skamms tíma hafa versnað," segir í Hálf-fimm fréttum Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×