Viðskipti innlent

Kaupþing og Straumur sigla heim með gullið frá Svíþjóð

Sænska viðskiptablaðið Dagens Industri fjallar um það í dag að Kaupþing banki og Straumur-Burðarás hafi selt mikið af hlutum sínum í sænskum félögum í ár og síðan siglt heim með gullið eins og það er orðað. Þannig hafi eignasafn Straums-Burðarás minnkað um 870 milljónir skr. eða um 8,7 milljarða kr. og greint er frá því að Kaupþing hafi dregið sig út úr 18 af þeim 38 félögum sem það átti í um áramót.

Landsbanki Íslands kemur einnig við sögu hjá Dagens Industri en bankinn er nú stærsti íslenski aðilinn á sænska hlutabréfamarkaðinum með eignasafn upp á 1,26 milljarða skr. eða tæplega 13 milljarða kr. Enfremur segir að Landsbankinn hafi ekki hugsað sér til hreyfings af sænska markaðinum í bráð.

Þá er Tryggingamiðstöðin einnig áfram á sænska markaðinum en félagið hefur að undanförnu keypt hluti í Nordea, SEB og Carnegie.

Það vekur sérstaka athygli blaðamannsins sem skrifar greinin um heimsiglingu Straums og Kaupþings að Kaupþing heldur enn þá 550 B-hlutabréfum í fótboltafélaginu AIK.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×