Viðskipti innlent

Lækkun á hlutabréfamörkuðum víða í heiminum

MYND/365

Greiningadeild Kaupþings telur að sú lækkun sem varð á innlendum hlutabréfamarkaði í dag gæti tengst frétt Sunday Times um helgina. Þar var greint frá því að alþjóðlegir bankar muni lenda í miklum erfiðleikum með að fjármagna lausafjárþörf sína á næstu dögum. Auk þess sem lánsfé minnki muni lánskjör á skammtímalánum versna. Greiningardeild Kaupþings telur að íslenskir bankar séu ágætlega í stakk búnir til þess að mæta þessum aðstæðum en skuldatryggingaálag þeirra hafi þó hækkað líkt og annarra fjármálastofnana að undanförnu.

Lækkanir á Wall Street

Greiningadeildin segir að sveiflur hafi einnig verið á hlutabréfum á Wall Street í dag. Markaðurinn hafi hækkað við opnun vegna væntinga um að Bandaríski seðlabankinn lækki vexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi þann 18. september. Flestir sérfræðingar spái því að vextir lækki um 0,25 prósentustig eða jafnvel meira, sem að öðru óbreyttu ætti að styðja við hlutabréfamarkaðinn. Hlutabréf hafi hins vegar tekið að lækka er leið á daginn vegna ótta fjárfesta um að fjármálafyrirtæki þurfi að leggja meiri fjármuni til hliðar sökum undirmálskrísunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×