Viðskipti innlent

Býst við harðari tóni á næsta vaxtaákvörðunarfundi

Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir að tónninn í Seðlabankanum verði heldur harðari á næsta vaxtaákvörðunarfundi í nóvember í ljósi þess að Davíð Oddsson seðlabankastjóri gaf til kynna í dag að skammtímaverðbólguspá bankans væri of lág.

Telur greiningardeildin að Seðlabanki Íslands þurfi að hækka spár sínar bæði fyrir hagvöxt og verðbólgu í næstu Peningamálum sem verða gefin út í nóvember. Greiningardeildin telur því að stýrivextir lækki ekki fyrr en í maí á næsta ári en í grunnspá bankans er gert ráð fyrir að vaxtalækkun hefjist í mars 2008.

Bent er á í tilkynningu frá greiningardeildinni vegna vaxtaákvörðunar Seðlabankans í dag að töluverð viðskipti hafi átt sér stað áður en fréttamannafundur Seðlabankans hófst klukkan 11. „Söluþrýstingur myndaðist á verðtryggðum og óverðtryggðum bréfum sem líklega má rekja til þess að markaðsaðilar bjuggust við hörðum tóni í skilaboðum frá bankanum. Eftir fréttamannafundinn myndaðist hins vegar kaupþrýstingur á skuldabréfamarkaði þá einkum á verðtryggðum bréfum. Sömu viðbrögð má segja að hafi verið á gjaldeyrismarkaði en krónan veiktist lítillega í upphafi dags en sú veiking hefur gengið tilbaka að mestu leyti," segir í tilkynningu greiningardeildar Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×