Viðskipti innlent

Fjármagnstekjur Íslendinga nálgast 400 milljarða í ár

Ingólfur Bender: Þessar tölur geta vel staðist.
Ingólfur Bender: Þessar tölur geta vel staðist.

Í nýjasta fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins er leitt líkum að því að fjármagnstekjur Íslendinga í ár nemi allt að 400 milljörðum kr. Á fyrstu sjö mánuðum ársins námu tekjurnar 209 milljörðum kr. Þessar tölur byggja á upplýsingum frá Seðlabankanum en ef þetta gengur eftir myndu skatttekjur ríkissjóðs af þessu nema 30-40 milljörðum kr.

Ingólfur Bender forstöðumaður Greiningardeildar Glitnis segir að þessar tölur fái vel staðist. Hann bendir þó á að Seðlabankinn hafi verið gagnrýndur fyrir að vanmeta fjármagnstekjur Íslendinga erlendis. Ef fyrirtæki erlendis séu ekki á markaði eru tekjur af þeim ekki sýnilegar fyrr en fyrirtækin eru seld.

"Og þess má einnig geta að mest af hækkunum á íslenska markaðinum komu fram fyrripart ársins. Við reiknum almennt með að markaðurinn muni hækka aðeins fram að áramótum," segir Ingólfur. "Að teknu tilliti til þessara tveggja þátta er ekki óeðlilegt að áætla fjármagnstekjurnar af þessari stærðargráðu."

Fram kemur í fréttabréfi SA að 209 milljarðar kr. séu meiri fjármagnstekjur en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu á öllu árinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×