Viðskipti innlent

Bílnum stungið í samband

MYND/Calcars.org

Breskir sérfræðingar vinna nú að því að breyta Toyota Prius tvinnbíl þannig að hlaða megi hann eins og hvert annað heimilistæki, með því að stinga honum í samband.

Bretarnir komu hingað til lands í gær á vegum Orkuseturs.

Breytingin fer þannig fram að eldri gerð rafhlaðna tekin úr venjulegum tvinnbíl og í staðinn settar stærri rafhlöður af líþíum fosfat gerð, sem er nýjasta tækni í rafhlöðum og geta drifið bílinn einar saman allt að 50 kílómetrum. Lokapunkturinn er svo að setja tengibúnað á bílinn til að hægt sé að stinga honum í samband í venjulega heimilisinnstungu og hlaða rafhlöðurnar, til dæmis yfir nótt.

Hefðbundinn meðalakstur Íslendings á dag er um 30-40 kílómetrar og því getur bíllinn verið knúinn innlendri, endurnýjanlegri orku að mestu leyti.

Bíllinn tekur þátt í Kappakstrinum mikla, keppni vistvænna ökutækja sem verður haldin 13 september næstkomandi í tengslum við Samgönguviku Reykjavíkurborgar.

Þá verður bíllinn á sýningu á visthæfum bílum í Perlunni 15-17 september. Sýningin er í tengslum við ráðstefnuna Driving Sustainability, sem verður haldin á hótel Nordica 17-18 september. Gestgjafar ráðstefnunnar eru Reykjavíkurborg, Landsbankinn og Icelandair. Þar verður fjallað um orkugjafa sem gætu komið í stað um jarðefnaeldsneytis fyrir bílaflotann, með séráherslu á hvaða lausnir væru bestar fyrir Ísland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×