Viðskipti innlent

Straumur skráir hlutafé í evrum fyrst íslenskra fyrirtækja

MYND/Anton

Stjórn Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka ákvað á fundi sínum í dag að skrá hlutafé bankans í evrum í stað íslenskra króna frá og með 20. september. Með þessu verður Straumur fyrsta íslenska fyrirtækið til að skrá hlutafé sitt í erlendri mynt.

Fram kemur í tilkynningu frá Straumi að skráning hlutafjár í evrum sé liður í stefnu félagsins að auka hlutfall erlendra fjárfesta í bankanum og í rökréttu framhaldi af því að bankinn hóf að birta uppgjör sín í evrum. „Sífellt stærri hluti af eignum og tekjum bankans er í erlendum myntum og hlutfall íslensku krónunnar í viðskiptum bankans minnkar jafnt og þétt. Bankinn telur að þessi breyting nú muni auka enn frekar áhuga erlendra fjárfesta á Straumi, breikka hluthafahóp bankans og styðja við áframhaldandi vöxt," segir í tilkynningu Straums.

Umreikningur hlutafjárins tekur lögum samkvæmt mið af lokagengi evru þann 31. desember 2006. Hlutafé Straums verður því 109.493.129 evrur í stað 10.359.144.971 króna. Umbreytingin raskar ekki eignarhlutföllum í félaginu og hefur sem slík ekki bein áhrif á verðmæti hlutafjáreignar hvers hluthafa um sig, segir í tilkynningu Straums.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×