Viðskipti innlent

Verðbólgan fari í sex prósent í upphafi næsta árs

Greiningardeild Landsbankans býst við hækkandi verðbólgu næstu mánuði sem nái hámarki í byrjun næsta árs þegar hún verði sex prósent.

Bent er á í verðbólguspá Landsbankans að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 2,6 prósent fyrstu átta mánuði þessa árs og sé litið fram hjá áhrifum lækkunar á virðisaukaskatti á matvæli í mars síðastliðnum nemi hækkun vísitölunnar á árinu 4 prósentum. Verðbólgan standi nú í 3,4 prósentum.

Greiningardeildin segir að á næstu máðum verði hækkun á neysluverðsvísitölunni, að hluta vegna árstíðabundinna liða en einnig komi þar til hátt olíu- og íbúðaverð. Lækkun á gengi krónunnar á síðustu vikum muni að öllum líkindum hafa einhver áhrif til hækkunar til skamms tíma en þegar líði á haustið reikni greiningardeildin með að krónan styrkist á ný.

Landsbankinn segir að þetta þýði að verðbólgan fari í byrjun næsta árs í sex prósent en eftir það lækki verðbólgan hratt og hafi náð verðbólgumarkmiði Seðlabankans, 2,5 prósentum, seinni hluta næsta árs. Verðbólgan á þessu ári verði 5,6 prósent en 1,6 prósent á því næsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×