Viðskipti innlent

Ríkisreikningur: Hagvöxtur var 2,6% á síðasta ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/ Rósa

Hagvöxtur á Íslandi mældist 2,6% á árinu 2006 en hann var rúmlega 7% tvö ár á undan. Samkvæmt niðurstöðutölum ríkisreiknings fyrir árið 2006 nam afgangur á rekstrarreikningi 82 milljörðum króna samanborið við 113 milljarða afgang árið áður. Þegar afkoman er skoðuð án tilfallandi liða eins og eignasölu, lífeyrisskuldbindinga og afskrifta skattkrafna er afgangur af venjubundinni starfsemi 91 milljarður króna en afgangur ársins á undan nam 63 milljörðum.

Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að handbært fé frá rekstri, það er að segja það fjármagn sem rekstur ríkissjóðs skilaði til að bæta eignastöðu sína, hafi numið 88 milljörðum króna á árinu samanborið við 35 milljörðum árið á undan. Ríkissjóður hafi nýtt þessa greiðsluafkomu til að lækka skuldir og bæta sjóðstöðu sína hjá Seðlabankanum í því skyni að vega á móti þenslu og eftirspurn í hagkerfinu.

„Tekjur ársins 2006 urðu alls 422 milljarðar króna á árinu en það er um 37% af landsframleiðslu samanborið við rúm 41% árið á undan. Tekjur af sköttum á sölu vöru og þjónustu nema 186 milljörðum króna og eru þær 44% af heildartekjum. Það er hækkun um 21 milljarð frá fyrra ári og vegur þar þyngst að tekjur af virðisaukaskatti hækka um 18 milljarða.

Gjöld ársins 2006 nema 340 milljörðum króna en það er 29,8% af landsframleiðslunni. Árið 2005 voru gjöldin 308 milljarðar eða 30,2% af landsframleiðslunni. Gjöldin hækka því um 32 milljarða króna eða 3,3% að raungildi miðað við breytingar neysluverðsvísitölunnar," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×