Innlent

Borgarfulltrúar setja sér siðareglur

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. MYND/365

Stefnt verður að því að taka upp siðareglur fyrir borgarfulltrúa næsta haust en tillaga þessa efnis var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur í dag. Reglunum er ætlað að skilgreina það hátterni sem kjörnir fulltrúar sýni að sér við störf sín fyrir hönd borgarinnar eins og segir í drögum að siðareglunum.

Það voru fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarstjórn sem lögðu fram tillöguna. Í henni kemur fram að stefnt skuli að staðfestingu siðareglna fyrir kjörna fulltrúa næsta haust.

Siðareglunum verður gert að skilgreina þau gildi sem liggja til grundvallar við meðferð almannavalds, bann við spillingu og misbeitingu valds og hvernig umgangast skuli hagsmunaárekstra og stöðuveitingar.

Samþykkt borgarstjórnar í dag gerir einnig ráð fyrir að útfærðar verði reglur borgarstjórnar um gjafir, boðsferðir og birtingu annarra skyldra upplýsinga.

Fram kemur í tilkynningu frá borgarfulltrúum Samfylkingarinnar að siðareglur í opinberri stjórnsýslu hafi rutt sér mjög til rúms víða um heim að undanförnu. Skráning þeirra hefur meðal annars verið viðbrögð við dalandi trausti á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×