Innlent

Jafnrétti í reynd er leiðarljós nýrrar ríkisstjórnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni á Alþingi í kvöld að jafnrétti í reynd væri leiðarljós í allri stefnumótun nýrrar ríkisstjórnar. Hún sagði löngu tímabært að láta endurmeta kjör kvenna hjá hin opinbera líkt og gert var hjá Reykjavíkurborg á sínum tíma.

Þessi stefna, að karlar og konur sitji við sama borð er grundvallaratriði að mati Ingibjargar og öðruvísi verði ekki hægt að ná fullri sátt í þjóðfélaginu. Í ræðu sinni tók hún undir með Geir H. Haarde forsætisráðherra og talaði um þá ætlun nýrrar ríkisstjórnar að verða frjálslynd umbótastjórn.

Hvað utanríkismálin áhrærir sagði Ingibjörg að ákvörðun fyrri ríkisstjórnar þess efnis að lýsa yfir stuðningi við stríðið í Írak væri og hefði verið umdeild. Siðferðileg ábyrgð fylgdi þeirri ákvörðun og hana yrðu Íslendingar að axla. Að hennar dómi átti stuðningur við stríðið aldrei að koma til greina. Ingibjörg benti þá á að ný ríkisstjórn harmi stríðsreksturinn. Það væri mikilvæg yfirlýsing og bæri vott um nýja stefnumótun í utanríkismálum þar sem „friðsamleg lausn deilumála og virðing fyrir alþjóðalögum og mannréttindum verða leiðarljós stjórnvalda á alþjóðavettvangi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×