Innlent

Mikill verðmunur á milli skólamötuneyta

MYND/Pjetur

Neytendastofa hefur gert verðkönnun í skólamötuneytum um land allt. Í kjölfar lækkunar virðisaukaskatts á dögunum bárust Neytendastofu fjölmargar ábendingar vegna sölu grunnskóla á mat til nemenda. Í könnuninni kemur margt fróðlegt fram en sérstaklega var kannað hvort skýrir skilmálar væru í gildi í grunnskólum um verðmyndun og verðlagningu. Í ljós kom að algengt er að skilmálar séu óljósir um kostnaðarskiptinguna á milli hráefnis og annars kostnaðar við máltíðirnar.

Könnunin tók til 124 skóla í 39 sveitarfélögum. Í 38 skólum í 25 sveitarfélögum greiða nemendur aðeins fyrir hráefnið en annar kostnaður fellur á viðkomandi sveitarfélag. Lægsta verðið á meðal þessara skóla var 140 krónur en hæsta verð var 417 krónur. Að meðaltali greiddu nemendur í þessum hópi 240 krónur fyrir máltíðina.

Í 79 skólum í 12 sveitarfélögum greiða nemendur fyrir hráefnið og hluta kostnaðar. Lægsta verð í þeim flokki var 185 krónur og hæsta 341 króna. Meðalverð var 262 krónur.

Aðeins fjórir skólar í tveimur sveitarfélögum láta nemendur greiða allan kostnaðinn við mötuneytið. Þar annast einkaaðilar alfarið þjónustuna. Lægsta verð í þeim flokki var 338 krónur, hæsta verð 340 krónur og meðaltalið var einnig 340 krónur.

Í tveimur skólum af þeim 124 sem könnunin náði til bjóða upp á ókeypis skólamáltíðir. Þetta tíðkast í grunnskóla Skagastrandar og í Stóra Vogaskóla í Vatnsleysystrandarhreppi.

Neytendastofa tekur skýrt fram að ekkert mat hafi verið lagt á gæði eða þjónustu í könnuninni en hún beinir þeim tilmælum til ábyrgðaraðila skólamötuneyta að hafa skýra skilmála um kostnaðarskiptingu og verðmyndun máltíða í skólamötuneytum.

Heildartöflu um verð í skólum má sjá hér fyrir neðan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×