Innlent

Portúgalski sendiherrann á leið til landsins

Sendiherra Portúgals í Noregi hefur boðað komu sína til Íslands til að kanna aðstæður landa sinna á Kárahnjúkum. Fyrrverandi verkamenn þar líkja starfinu við þrælahald. Upplýsingafulltrúi Impregilo býður sendiherrann velkominn á Kárahnjúka.

Portúgölsk stjórnvöld líta ásakanir verkamannanna alvarlegum augum. Helga Lára Guðmundsdóttir konsúll Portúgals hér á landi segir að nú sé verið að ganga frá ferðatilhögun sendiherra landsins í Noregi. Umfjöllun fjölmiðla síðustu daga sé þess eðlis að ganga verði úr skugga um að aðstæður þar séu í lagi. Með því sé þó ekki gengið út frá að hlutir á Kárahnjúkum séu í ólagi.

 

Fyrrverandi starfsmenn við virkjunina hafa líkt vinnuaðstæðum þar við þrælahald, þeir séu látnir vinna í vatni sem nái þeim upp að hnjám í göngum þar sem skyggni sé örfáir metrar vegna mengunar. Þá sé maturinn í göngunum nánast óætur og Portúgalar séu látnir vinna lengur en aðrir starfsmenn og fái minna borgað.

 

Ómar R. Valdimarsson upplýsingafulltrúi Impregilo segir að vel verði tekið á móti sendiherranum og honum sé frjálst að skoða það sem hann vill á staðnum. Nú starfa um sautján hundruð verkamenn á Kárahnjúkum og eru um þrjú hundruð þeirra portúgalskir ríkisborgarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×