Innlent

Stjórn og stjórnarandstaða funda um sumarþing

Forystumenn stjórnarflokkanna hitta forystumenn stjórnarandstöðunnar í dag til að ræða fyrirkomulag sumarþings sem kemur saman á fimmtudag. Ríkisstjórnin hyggst leggja fram aðgerðaráætlun í málefnum barna og frumvarp til breytingar á lögum um ráðuneyti þar sem verkefni færast á milli.

Ríkisstjórnin kom til fundar í morgun þar sem m.a. var farið yfir þau mál sem stjórnin telur nauðsynlegt að afdgreidd verði á sumarþingi.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir aðgerðum til að bæta hag aldraðra annars vegar og barna og ungmenna hins vegar. Ríkisstjórnin vill hefjast handa strax varðandi börnin.

Formenn stjórnarflokkanna munu funda með forystumönnum stjórnarandstöðunnar síðar í dag til að ræða skipulag sumarþingsins. Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur sagt að þinginu verði gefinn sá tími sem þarf en ekki liggur ljóst fyrir hvort stjórnarandstaðan vill koma einhverjum málum áleiðis á þessu stutta þingi. Þingflokkar stjórnarflokkanna koma saman á morgun, þar sem m.a. verður farið yfir hverjir munu gegna formennsku í nefndum þingsins.

Þá munu þingflokkarnir koma sér saman um það hverjir gegna embættum, annars og þriðja forseta Alþingis, en Sturla Böðvarsson fyrrverandi samgönguráðherra verður fyrsti forseti Alþingis þegar það kemur saman á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×