Innlent

Ólafur sakaður um kafbátahernað

Það stefnir í formannsslag í Landssambandi eldri borgara um næstu helgi. Ólafur Ólafsson lýsti því yfir í vetur að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram til formennsku en hefur nú skipt um skoðun. Þetta segir Helgi Hjálmsson sem er formannsefni kjörnefndar.

Eins og fram kom í fréttum í gær eru miklar væringar innan félags eldri borgara sem heldur sitt þing um næstu helgi þar sem formaður og sambandsstjórn verður kosin. Ólafur Ólafsson hefur gegnt formennsku í landssambandinu en gagnrýnir nú Borgþór Kærnested, framkvæmdastjóra Landssabandsins, harðlega fyrir að vinna gegn sér. Meðal annars hafi Ólafi verið meinaður aðgangur að skrifstofu Landssambandsins. Ólafur segir að Borgþór hafi ritað einum manni í kjörnefnd bréf og kvartað yfir því að Ólafur væri of harður í sínum störfum. Vænta mætti mótframboðs gegn Ólafi, ef hann biði sig fram til áframhaldandi formennsku.

Það er varaformaðurinn, Helgi Hjálmsson sem er formannskandidat kjörnefndar. Í samtali við Stöð 2 segir Helgi að hann hafi fallist á að bjóða sig fram þegar eftir því hefði verið leitað. Þá hafi ekki annað legið fyrir en að Ólafur hyggðist draga sig í hlé og hefði hann sjálfur lýst því yfir í vetur á fundi stjórnar. Hafi þetta verið bókað í fundargerðir stjórnar félagsins. Nú hafi Ólafur hins vegar skipt um skoðun og vilji hann gegna formennsku áfram.

Helgi segist ekki ætla í stríð á gamals aldri en hann verði í framboði á lista kjörnefndar. Hann sakar Ólaf um kafbátahernað og telur að hann hafi ekki komið fram af heilindum.

Framkvæmdastjórn landssambands eldri borgara kemur saman á morgun. Helgi segist vona að þar verði vatnaskil og þessi átakamál leidd til lykta.

Aðildarfélög að Landssabandi eldri borgara eru 53 um land allt og eru átján þúsund félagar í sambandinu.

v




Fleiri fréttir

Sjá meira


×