Innlent

Við það að renna út í Jökulsárlón

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Lögreglumaður ræðir við ökumanninn seinheppna á vettvangi.
Lögreglumaður ræðir við ökumanninn seinheppna á vettvangi. MYND/Óðinn Árnason
Minnstu munaði að bíll færi út í Jökulsárlón í gær þegar eigandinn brá sér út til þess að smella myndum af lóninu. Hann gleymdi að setja bílinn í handbremsu og rann hann af stað og stöðvaðist ekki fyrr en á stórum steini á bakka lónsins.

Eigandi bílsins er Pólverji sem starfar hér á landi og var hann í bíltúr um Suðurland við annan mann. Að sögn lögreglunnar á Höfn gekk furðuvel að ná bílnum upp og var hann í ökuhæfu ástandi á eftir.

Framkvæmdir hafa verið við lónið þar sem verið er að bæta í sjóvarnagarða og segir lögreglan að ef þær framkvæmdir hefðu ekki verið hafnar hefði bíllinn án efa farið út í lónið.

Lögreglan segir að litlu hefði mátt muna að bíllinn færi út í lónið því hann vóg salt á stórum steini rétt við vatnsborðið. Hefði hann farið út í hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum því þarna mun vera mikill straumur og hefði bíllinn sennilega rekið á haf út, að sögn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×