Innlent

Eyddu djúpsprengju á Rifi

MYND/Landhelgisgæslan

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir vestur á Rif á Snæfellsnesi í nótt eftir að skipstjóri togbáts hafði fengið torkennilegan hlut í veiðarfærin.

Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að skipstjórinn hafi sett hlutinn á land í höfninni í Rifi en þar sem hann var ekki viss um að þetta væri sprengja hafði hann samband við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar.

Út frá lýsingum skipstjórans og myndum lögreglunnar á Rifi komust sérfræðingarnir að því að um væri að ræða djúpsprengju og var lögregla fengin til þess að vakta hana þangað til sérfræðingarnir komu til Rifs í nótt.

Við rannsókn á sprengjunni kom í ljós að hún var full af sprengiefni en kveikibúnaðinn vantaði á hana. Sprengjan var svo flutt á afvikinn stað þar sem sprengjusérfræðingarnir eyddu henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×