Handbolti

Einar Hólmgeirsson kominn af stað eftir meiðsli

Einar skoraði fimm mörk fyrir Grosswallstadt í dag
Einar skoraði fimm mörk fyrir Grosswallstadt í dag NordicPhotos/GettyImages

Hamburg styrkti stöðu sína í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í dag með góðum sigri á Flensburg á heimavelli 33-31. Leikurinn var fjörugur og skemmtilegur og var sýndur beint á Sýn. Alls voru fjórir leikir á dagskrá í deildinni í dag og í kvöld og þar bar hæst að Einar Hólmgeirsson er nú að ná sér á skrið á ný eftir meiðslin sem kostuðu hann þátttöku á HM í Þýskalandi.

Þeir Roman Pungartnik, Torsten Jansen, Pascal Hens og Guillaume Gille skoruðu allir sex mörk hver fyrir Hamburg í dag, en Marcin Lijewski skoraði 9 fyrir Flensburg og Lars Christiansen skoraði 7 mörk. Maður leiksins var þó klárlega gamla brýnið Gordan Stojanovic hjá Hamburg, en hinn 41 árs gamli markvörður varði 19 skot í leiknum.

Wilhelmshavener lagði Minden 28-23 eftir að hafa verið með forystu 15-11 í hálfleik. Tobias Shröder skoraði 10 mörk fyrir Wilhelmshavener en Gylfi Gylfason komst ekki á blað. Mirza Cehajic og Stephan Just skoruðu 7 mörk fyrir Minden og Snorri Steinn Guðjónsson 3 og Einar Örn Jónsson 2.

Grosswallstadt fékk þungan skell á heimavelli gegn Nordhorn 33-26 eftir að hafa verið með fjögurra marka forystu í hálfleik. Alexander Petersson skoraði 7 mörk fyrir Gross og Einar Örn Hólmgeirsson skoraði 5 mörk.

Loks steinlá Lubbecke á heimavelli fyrir Kronau Östringen 33-18 eftir að hafa verið undir 19-6 í fyrri hálfleik. Þórir Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Lubbecke en David Szlezak skoraði 10 mörk fyrir gestina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×