Viðskipti innlent

Matís í tímamótasamstarf við Háskólann

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Aðalbygging Háskóla Íslands
Aðalbygging Háskóla Íslands
Verið er að ganga frá samningi um stóraukið samstarf Matís ohf., og Háskóla Íslands. Þetta kom fram í máli Sjafnar Sigur­gísladóttur, forstjóra Matís, á haustráðstefnu fyrirtækisins fyrir helgi.

Sjöfn segir samstarfið munu marka ákveðin tímamót, en þegar starfar fjöldi doktorsnema að verkefnum hjá Matís í samstarfi við Háskólann. Hún segir markmið skólans að efla enn frekar matvæla- og næringarfræðimenntun.

„Þannig mun samstarfið verða til að efla enn frekar alþjóðlega menntun og rannsóknir. Á sama tíma er verið að vinna að miklum skipulagsbreytingum innan Háskóla Íslands og sér Matís mikil tækifæri í því að matvæla- og næringarfræði verði deild innan heilbrigðissviðsins og er það í raun hluti af þeirri þróun sem almennt á sér stað í þjóðfélaginu. Það er að segja að tengja saman í auknum mæli matvælaþróun, matvælaframleiðslu og næringu og heilsu.“

Matís er opinbert hlutafélag sem sinnir matvælarannsóknum og varð til um síðustu áramót við samruna þriggja ríkisstofnana, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×