Viðskipti innlent

Fitch lækkar NIBC og breytir horfum Kaupþings í neikvæðar

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings hefur lækkað lánshæfiseinkunnir hollenska bankans NIBC fyrir langtímaskuldir, skammtímaskuldir og víkjandi lán um eitt þrep.

Fjallað er um málið í Morgunkorni Glitnis en eins og kunnugt er keypti Kaupþing hollenska bankann í sumar. Á sama tíma staðfestir Fitch lánshæfismat Kaupþings og Singer & Friedlander en breytir horfum um lánshæfiseinkunn langtímaskulda þeirra úr stöðugum í neikvæðar.

Fitch Ratings rökstyður lækkun lánshæfismats NIBC með því að tekjur NIBC eru viðkvæmar fyrir því ástandi sem nú ríkir á fjármálamörkuðum og hversu háður bankinn sé fjármögnun af markaði.

Í Morgunkorninu nú um hádegið segir að íslenski hlutabréfamarkaðurinn sneri við eftir birtingu tilkynningar Fitch og hefur nú lækkað um 1,3%. Verð hlutabréfa Kaupþings hefur lækkað um 1,8% í dag (kl. 12:15).

Lækkun lánshæfiseinkunna NIBC og neikvæðar horfur á lánshæfi Kaupþings koma í sjálfu sér ekki á óvart. Að mati greinignar Glitnis hafa verri horfur um fjármagnskostnað og aðgengi Kaupþings að fjármagni endurspeglast í lækkun hlutabréfaverðs bankans síðustu vikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×