Innlent

Verður endurskoðað í ágúst

Um miðjan ágúst lýkur tveggja mánaða tilraunaverkefni með vopnaleitarhliði fyrir ákveðna hópa fólks.
Um miðjan ágúst lýkur tveggja mánaða tilraunaverkefni með vopnaleitarhliði fyrir ákveðna hópa fólks.

„Upp úr miðjum ágúst setjumst við niður og förum yfir málin. Hvernig þetta hefur gengið og hvort það sé vilji til að halda þessu áfram,“ segir Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli.

Í júní hófst tveggja mánaða tilraunaverkefni með sérstakri vopnaleit fyrir Saga class-farþega í Leifsstöð til að þeir þyrftu ekki að bíða jafn lengi og almenningur. Skömmu síðar fengu viðskiptavinir Iceland Express, sem borga aukalega fyrir að velja sæti, einnig aðgang að hliðinu.

„Það er undir flugfélögunum komið hvort þetta haldi áfram. Það eru þau sem borga fyrir þetta,“ segir Björn. Hann segir að það hafi alltaf legið ljóst fyrir að flugfélögin sem nýta þjónustuna greiði fyrir hana. Umræðan hafi verið misvísandi í fjölmiðlum á sínum tíma.

Aðspurður segir hann að það hafi ekki komið til umræðu að bjóða öllum aðgang að hliðinu gegn greiðslu eins og tíðkast sums staðar erlendis. „Við höfum ekki sama farþegafjölda og þessir flugvellir erlendis. Því er ólíklegt að sú leið verði farin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×