Viðskipti innlent

Félag fjárfesta er ekki bara einn maður

Vilhjálmur Bjarnason segir Félag fjárfesta ekki vera neitt einkaflipp.
Vilhjálmur Bjarnason segir Félag fjárfesta ekki vera neitt einkaflipp.

Vilhjálmur Bjarnason í Félagi fjárfesta blæs á þær sögusagnir að Félag fjárfesta sé eins manns félag og segir að þótt hann tali alltaf fyrir félagið þá séu meðlimir um 1500 þótt margir þeirra sé ekki virkir.

"Ég hef vissulega fundið það að menn eru að reyna að klekkja á mér með tali um að ég sé bara einn en ég ítreka að allt mitt tal snýst um málefni en ekki persónur," segir Vilhjálmur Bjarnason hjá Félagi fjárfesta um þá gagnrýni sem hann hefur fengið frá framámönnum í íslensku viðskiptalífi að félagið sé bara eins manns flipp.

Vilhjálmur hefur farið mikinn í gagnrýni sinni á frammistöðu stjórnenda fyrirtækja í Kauphöllinni og til að mynda gagnrýnt forsvarsmenn FL Group harkalega. 

Vilhjálmur segir að um 80 manns hafi mætt á fund sem félagið hélt 16. nóvember síðastliðinn um fjárfestavernd og vonast til að enn fleiri mæti á næsta fund sem haldin verður í byrjun næsta árs. "Þar verður farið yfir venjuleg aðalfundarstörf, hvernig félög eiga að halda aðalfundi," segir Vilhjálmur og þykir greinilega ekki vanþörf á að minna stjórnendur félaga á þann gjörning.

Og þótt Vilhjálmur sé eina andlit félagsins þá bendir hann á að öflugt fólk sé í stjórn þess. Þar er að finna Bolla Héðinsson og Ólaf Ísleifsson úr Háskólanum í Reykjavik, Halldór Halldórsson lögmann og Salvöru Nordal auk Vilhjálms sjálfs. "Ég er nú bara meðstjórnandi í stjórn og starfsmaður félagsins. Það er mikilvægt að það sé bara ein rödd sem heyrist frá félaginu og því tala ég. Það þýðir ekki að við séum fá," segir Vilhjálmur og bendir á sjálfan Kristnidóminn til samanburðar. "Þeir voru nú bara þrettán til að byrja með í þeim söfnuði og honum hefur vaxið fiskur um hrygg síðan þá."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×