Viðskipti innlent

Neyslugleðin í fullum gangi hérlendis

Neyslugleði landsmanna virðist enn vera í fullum gangi ef marka má greiðslukortaveltu í nóvember. Heildarvelta greiðslukorta nam um 79 milljörðum kr. í mánuðinum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni Glitnis og þar segir að af þessari upphæð var innlend velta um 54 milljarðar kr. Minnkaði veltan lítillega frá fyrra mánuði, en aukning heildarveltu frá sama tíma fyrra árs nam um 7,3% og aukning innlendrar veltu um 6,7% að raunvirði m.v. vísitölu neysluverðs.

Greiðslukortavelta gefur ágæta vísbendingu um þróun einkaneyslunnar, enda greitt fyrir stóran hluta neyslunnar með greiðslukortum. Af þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru af seinasta fjórðungi ársins hefur greiðslukortavelta innanlands numið um 110 milljörðum kr. sem er raunaukning um nálægt 8% m.v. sömu mánuði fyrra árs.

Þessi þróun er ekki óeðlileg í ljósi þess að kaupmáttur hefur aukist mikið og atvinnuleysi verið hverfandi á árinu. Gengi krónunnar hefur einnig hækkað frá seinni hluta síðasta árs, en mikil fylgni er á milli sterkrar krónu og mikils innflutnings bifreiða. Miðað við framkomnar tölur lítur því út fyrir nokkra aukningu einkaneyslu á síðasta fjórðungi ársins miðað við sama tíma í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×