Viðskipti innlent

Landsbankinn reynir yfirtöku á breskum banka

Fjárfestingabankinn Close Brothers hefur hafnað 1,4 milljarða punda, eða um 175 milljarða króna yfirtökutilboði Cenkos og Landsbankans. Fram kemur á vefsíðu The Times að boðinu hefði verið hafnað í morgun en HSBC er sagður bakhjarl tilboðsins. Landsbankinn hafnar því hins vegar að tilboð hafi verið gert.

Close er tífalt stærra fjármálafyrirtæki en Cenkos en ætlunin mun hafa verið að skipta Close upp milli Cenkos og Landsbankans. Við fregnir um að tilboðinu hefði verið hafnað hækkaðu hlutabréfin í Close um tæp 22%. Er sú hækkun rakin til orðróms um að Investec væri á hliðarlínunni með annað tilboði í Close.

Yfirtökutilboðið var lagt fram í gærkvöldi og kemur fram í The Times að það hafi komið forráðamönnum Close verulega á óvart. Tilboðið hafi verið talið algerlega ófullnægjandi og Close hafi þegar hafnað öllum viðræðum við Cenkos og Landsbankann um málið.

Landsbankinn sendi frá sér yfirlýsingu vegna tíðindanna í morgun þar sem fram kemur að félagið hafi átt viðræðum ásamt Cenkos við stjórn Close Brothers um yfirtökutilboð upp á 950 pens á hlut en ekkert tilboð hafi verið gert. „Gangi viðskiptin eftir, hefur Landsbankinn í hyggju að kaupa bankastarfsemi Close Brothers Group plc en Cenkos Securities plc mun halda eftir öðrum þáttum starfseminnar. Viðræður um þessi viðskipti eru nú á frumstigi og engin vissa er fyrir því að þær muni leiða til þess að gert verði yfirtökutilboð í Close Brother's Group plc," segir í tilkynningunni.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×