Innlent

Leita enn manns vegna tilraunar til nauðgunar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn manns sem grunaður er um að hafa reynt að nauðga konu á tvítugsaldiri í porti nálægt Þjóðleikhúsinu um sexleytið í gærmorgun.

Árásin átti sér stað í Traðarkotssundi gengt Þjóðleikhúsinu um sexleytið í gærmorgun. Stúlkan, sem er á tvítugsaldri, var ein á ferð þegar maðurinn réðist á hana, dró hana inní í portið við Traðarkotssund og reyndi að nauðga henni þar. Henni tókst með harðfylgi að komast undan og tilkynna atvikið.

Hún var flutt á neyðarmóttöku fyrir þolendur í kynferðisbrotum á Landspítalann í Fossvogi. Að sögn lögreglu hefur skoðun á eftirlitsmyndavélum í nágrenninu ekki varpað frekara ljósi á málið en engin eftirlitsmyndavél er í portinu þar sem árásin átti sér stað.

Árum saman hafa flestar nauðganir hér á landi átt sér stað í heimahúsum og á salernum skemmtistaða en í október í fyrra fór að bera á því að ráðist væri á konur sem voru einar á gangi í miðbænum og þeim nauðgað.

Í það minnsta þrjár slíkar nauðganir voru kærðar til lögreglu í þá. Ein nauðgunin var á svipuðum stað og nauðgunartilraunin í gærmorgun en þá sátu tveir karlmenn fyrir stúlku nærri Þjóðleikhúsinu og nauðguðu henni. Þeir náðust ekki. Lögregla segir að ekki sé hægt að útiloka að annar mannanna hafi verið á ferðinni í gærmorgun.

Lögregla hefur lýst eftir vitnum að árásinni en árásarmaðurinn er sagður um þrítugt. Hann er á bilinu 185-190 sentímetrar á hæð, með stutt, mjög dökkt eða svart hár og svarta skeggbrodda eða svart skegg. Maðurinn er grannvaxinn og var klæddur í rauða eða vínrauða peysu eða jakka og svartar buxur. Þeir sem kynnu að hafa upplýsingar um árásarmanninn eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna það til lögreglu í síma 444-1000 eða 444-1100.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×