Viðskipti innlent

Glitnir í samvinnu við kínverskt orkufyrirtæki

Glitnir og kínverska olíu- og orkufyrirtækið Sinopec hafa tilkynnt um aukna samvinnu við jarðhitaverkefni í Kína. Að samstarfinu koma einnig Geysir Green Energy og Reykjavík Energy Invest en markmið samstarfsins er að auka notkun á jarðhita til orkuframleiðslu í Kína. Glitnir og Sinopeg munu stofna sérstakt félag sem mun vinna að því að auka fjárfestingar í jarðhitaverkefnum í Kína.

Í tilkynningu um málið kemur fram að Sinopec, sem er skráð á kínverska og alþjóðlega fjármálamarkaði er stærsti framleiðandi og seljandi unninna olíuvara í Kína og annar stærsti hráolíuframleiðandi landsins. Fyrirtækið stundar olíuleit og boranir, rekur olíuhreinsistöðvar og fjölbreytta efnavöruframleiðslu, auk þess að eiga og reka birgðastöðvar og olíuleiðslur sem flytja gas og hráolíu.

Samstarfsaðilar hyggjast auka fjárfestingar í jarðhitaverkefnum í Kína með því að þróa áfram tækni í einstökum verkefnum um leið og könnuð verða tækifæri til nýrra hitaveitu- og orkuframleiðsluverkefna. Samningurinn er hrein viðbót við Xianayang jarðhitaverkefnið sem fyrirtækin hafa unnið að með samstarfsaðilum sínum síðan 2006. Nýting jarðhita er umhverfisvænn og hagkvæmur valkostur við hefðbundna orkuframleiðslu í Kína þar sem um 70% orkunnar eru framleidd með kolum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×