Viðskipti innlent

Gunnlaugur mun hætta sem stjórnarformaður TM

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson hefur verið stjórnarformaður TM undanfarin sex ár.
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson hefur verið stjórnarformaður TM undanfarin sex ár. MYND/HARI

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Tryggingamiðstöðvarinnar, mun stíga úr stól sínum á næsta hluthafafundi fýrirtækisins sem haldinn verður á næstu vikum. Þetta staðfesti hann í samtali við Vísi en rúm 75% hlutafjár TM skiptu um eigendur í síðustu viku.

"Það væri hrein frekja að ætlast til að halda áfram sem stjórnarformaður," segir Gunnlaugur og vísar til þess að hlutur hans var seldur í viðskiptum síðustu viku.

Búist er við að kaup Glitnis á 40% hlut í TM af Guðbjörgu Matthíasdóttur og hjónunum Geir og Sigríði Zoéga og kaup FL Group á hlutum Sunds og annarra félaga í eignarhaldsfélaginu Kjarrhólma verði fullkláruð 25. september. Í kjölfarið verður síðan boðað til hluthafafundar þar sem ný stjórn verður kjörinn.

Gunnlaugur segir við Vísi að hann kvíði ekki verkefnaleysi enda hafi hann ekki verið í fullu starfi. "Það er nóg að gera hjá mér sem stjórnarformaður í fyrirtækjum eins og Lýsi og Ísfélagi Vestmannaeyja sem er ört vaxandi fyrirtæki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×