Viðskipti innlent

Fasteignamarkaðurinn enn á útopnu

Fasteignamarkaður hefur verið mjög öflugur á þessu ári og endurspeglað góðar aðstæður í hagkerfinu til húsnæðiskaupa. Gott atvinnuástand og miklar launahækkanir hafa verið helsti drifkraftur markaðarins ásamt allgóðu aðgengi að lánsfjármagni. Allt þetta hefur gert það að verkum að eftirspurn eftir húsnæði hefur verið mikil og fólksfjölgun í landinu hefur einnig aukið eftirspurn. Fjallað er um málið í Morgunkorni Glitnis.

Engin merki eru um að farið sé að hægjast um á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og vikulegar veltutölur sem Fasteignamat ríkisins birtir gefa til kynna að umsvifin séu heldur að aukast en hitt.

Undanfarnar tvær vikur hefur um 250 kaupsamningum verið þinglýst í hvorri viku samanborið við um 200 þinglýsta kaupsamninga á viku í ágúst. Þessi aukning á sér stað skömmu eftir að viðskiptabankarnir, Íbúðalánasjóður (ÍLS) og margir lífeyrissjóðir hafa hækkað verðtryggða langtímavexti í 5,1% hjá ÍLS og 5,8%-5,95% hjá viðskiptabönkunum. Vaxtahækkunin virðist því bíta lítið á húsnæðiskaupendum, sem ýmist taka þessi dýru lán til húsnæðisfjármögnunar eða fjármagna húsnæðiskaup sín með öðrum hætti.

Töluverð aukning hefur orðið á erlendum lánveitingum til húsnæðiskaupa á árinu og þó tölur um slík lán í september liggi ekki fyrir má leiða að því líkur að slík lántaka fari enn vaxandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×