Viðskipti innlent

Erlendir hluthafar horfnir úr eigendahópi Straums

Eggert Þór Aðalsteinsson

skrifar

Svo virðist sem þeir erlendu fjárfestar sem stóðu meðal annars að kaupum á 22,6 prósentum hlutafjár í Straumi-Burðarási af FL Group í desember á síðasta ári séu að mestu eða öllu leyti farnir út úr hluthafahópi Straums þrátt fyrir yfirlýsta stefnu félagsins að laða útlendinga að eigendahópi félagsins.

Meðal þeirra fjárfesta sem keyptu bréfin af FL voru tveir bandarískir fagfjárfestar sem eignuðust um tveggja prósenta hlut eins og kom fram í Fréttablaðinu þegar gengið frá viðskiptunum. Meðal hluthafa sem komu inn á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa voru Criollo S.A., Omricon Association S.A. og Visgan Corp sem hver um sig átti 1,68 prósenta hlut í bankanum um síðustu áramót. Þessir þrír aðilar féllu út af lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins í febrúar og virðist sem Landsbankinn í Luxembourg hafi tekið við þessum bréfum.

Straumur-Burðarás keypti sjálfur átta prósent af eigin bréfum á genginu 18 krónur á hlut þegar FL fór að mestu út úr félaginu. Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums, sagði þá að félagið myndi ekki eiga eigin bréf til langs tíma; þeim yrði annaðhvort miðlað út til áhrifafjárfesta eða stærri hóps fjárfesta.

Mikil gagnrýni hefur beinst að félaginu eftir að að stór hluti þessara eigin bréfa var seldur á dögunum til erlendra fjárfesta og hefur félagið verið sakað um að selja bréfin á undirverði. Straumur hagnaðist lítillega við söluna sem fór fram á genginu 18,6 krónur á hlut en hluturinn endaði í 19,6 krónum þann sama dag og greint var frá sölu eigin bréfa. Forsvarsmenn félagsins hafa bent á að sala á bréfunum hafi farið fram á markaðsverði þess tíma og farið hafi verið í einu og öllu eftir settum reglum um upplýsingagjöf á markaði, til dæmis hvað varðar flöggunarskyldu.

Már Másson, upplýsingafulltrúi FME, segir að eftirlitið hafi óskað eftir upplýsingum frá Straumi vegna nýlegra viðskipta með eigin bréf. „Þetta verður bara skoðað, með tilliti til annars vegar virkra eignarhluta og hins vegar þess sem snýr að flöggunarskyldunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×