Innlent

Mannekla í hjúkrun verulegt áhyggjuefni

MYND/GVA
Mikilvægt er að yfirvöld grípi strax til ráðstafana til að taka á alvarlegum húsnæðisvanda Landspítalans háskólasjúkrahúss og koma þannig í veg fyrir gangainnlagnir. Þetta kemur fram í ályktunum aðalfundar læknaráðs Landspítalans háskólasjúkrahúss. Ráðið telur manneklu í hjúkrun verulegt áhyggjuefni og skorar á heilbrigðisyfirvöld að leysa þann vanda sem allra fyrst.

Á aðalfundi læknaráðs Landspítalans háskólasjúkrahúss sem haldinn var á föstudaginn í síðustu viku voru samþykktar sex ályktanir er snúa að störfum lækna og rekstri Landspítalans. Ráðið ítrekar meðal annars að ráðningavald sé framselt til yfirlækna sérgreina og að efla þurfi stjórnun og aðstöðu sérgreina á spítalanum.

Ráðið telur ennfremur að nauðsynlegt að ábyrgð, réttindi og skyldur þeirra er sitja í stjórnunarstöðum hjá spítalanum sé skilgreint betur og að nafngiftir stjórnenda í lækningum sé endurskoðuð.

Þá skorar læknaráðið á stjórnvöld að bregðast sem fyrst við alvarlegum húsnæðisvanda spítalans annað hvort með nýbyggingum eða útvegun húsnæðis í námunda við sjúkrahúsið. Ráðið lýsir yfir verulegum áhyggjum af manneklu í hjúkrun og telur mikilvægt að stjórnvöld bregðist einnig við þeim vanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×