Innlent

Undir áhrifum eiturlyfjakokkteils

MYND/Pjetur

Lögreglan á Akranesi stöðvaði í gærkvöld karlmann á leið til bæjarins með nokkurt magn eiturlyfja og lyfja í fórum sínum. Lögreglan fékk tilkynningu um einkennilegt aksturslag mannsins í Hvalfjarðargöngunum og ók því til móts við hann.

Vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum lyfja og fékkst það staðfest við prófun á lögreglustöðinni. Reyndist hann undir áhrifum amfetamíns, metamfetamíns, ópiumefna og kannabis.

Við leit á manninum og bíl hans fundust svo 26 grömm af amfetamíni, 17 grömm hassi, 1 gramm af marijúana og 51 tafla af róandi lyfjum. Maðurinn kannaðist ekki við að hafa neytt fíkniefna síðan um hvítasunnu og varð mjög hissa á því að lögreglan skyldi hafa fundið efnin. Hann hefði keypt þau til neyslu yfir hvítasunnuna en taldi sig hafa glatað þeim með því að hafa misst þau niður um gat við handbremsu bílsins.

Segir lögregla að henni hafi þótt þetta vera töluvert mikið af efnum til eigin neyslu en maðurinn hafi gefið þá skýringu að ódýrara væri að kaupa meira af efnunum en minna. Maðurinn var látinn laus að lokinni yfirheyrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×