Viðskipti innlent

Kaupþing má reka banka í Færeyjum

Auglýsing Kaupþings í Færeyjum. Kaupþing hefur lengi stundað verðbréfamiðlun í Færeyjum, en með nýfengnu bankaleyfi verður öll starfsemin sameinuð í höfuðstöðvum bankans við Bókbindaragötu í Þórshöfn.
Auglýsing Kaupþings í Færeyjum. Kaupþing hefur lengi stundað verðbréfamiðlun í Færeyjum, en með nýfengnu bankaleyfi verður öll starfsemin sameinuð í höfuðstöðvum bankans við Bókbindaragötu í Þórshöfn.

Kaupþing í Færeyjum sér fram á að tvöfalda hjá sér starfsmannafjölda með auknum umsvifum. Færeyska útvarpið greindi frá því að bankinn hafi fengið leyfi til að reka þar bankastarfsemi, en hingað til hefur Kaupþing rekið þar verðbréfamiðlun.

Bankinn ætlar að þjóna atvinnulífinu en með lánum sem móðurfélagið hefur þegar veitt færeyskum fyrirtækjum nemur markaðshlutdeild hans þegar 20 til 25 prósentum. Peter Holm, forstjóri Kaupþings í Færeyjum, svaraði því til þegar færeyska útvarpið spurði hann hvernig náðst hefði jafnstór hlutdeild af markaðnum, að bankinn hafi lagt sig eftir því að ná til stærri viðskiptavina.

Samningur milli Íslands og Færeyja sem gengið var frá í vetur greiðir leið margvíslegum viðskiptum og fólksflutningum milli landanna og því geta íslenskir bankar hafið starfsemi í Færeyjum og öfugt, ef því er að skipta. Líklegt er að fyrirætlanir Kaupþings, sem er meðal 100 stærstu banka í Evrópu og mun stærri en færeysku bankarnir, valdi nokkrum titringi á bankamarkaði þar og fyrirsjáanleg er hörð samkeppni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×