Viðskipti innlent

Bakkabræður hafa misst 45 milljarða

Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir hafa horft upp á milljarðana hrynja af eign þeirra í Exista.
Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir hafa horft upp á milljarðana hrynja af eign þeirra í Exista. MYND/HARI

Bakkabræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hafa orðið hvað verst úti í lækkunum á hlutabréfamarkaðnum undanfarna 60 daga. Alls hefur 45,21% eign Bakkabraedra Holdings, eignarhaldsfélags þeirra, í Exista rýrnað um 44,4 milljarða frá því að Kauphöllinn opnaði að morgni dags 1. október. Eign bræðranna í Exista er nú rétt rúmlega 123 milljarða króna virði.

Exista hefur heldur ekki riðið feitum hesti frá Kauphöllinni frá 1. október þegar fjórði og síðasti ársfjórðungur hófst. Eign félagsins í Kaupþing hefur rýrnað um 36,5 milljarða og eign þeirra í Bakkavör Group um 7,7 milljarða.

Björgólfsfeðgar nálægt 40 milljörðum
Hlutir Björgólfsfeðga í Landsbankanum og Straumi-Burðarás hafa rýrnað um rúma 35 milljarða frá 1. október.MYND/HARI
Feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson hafa heldur ekki átt sjö dagana sæla á íslenska hlutabréfamarkaðnum frá 1. október. Rétt rúmlega 40% eign þeirra í Landsbankanum hefur rýrnað um 20,2 milljarða. Hlutur þeirra í Straumi-Burðarás hefur fallið í verði um 15,8 milljarða og 33% hlutur Fjárfestingafélagsins Grettis, sem er að langstærstum hluta í eigu Björgólfs Guðmundssonar, í Eimskip hefur lækkað um tæpa tvo milljarða. Feðgarnir eru þó ekki fæðiskeri staddir. Hlutur þeirra í Landsbankanum er metinn á 164,5 milljarða, hluturinn í Straumi á 51,5 milljarð og hluturinn í Eimskip á 22,7 milljarða. Hannes og Baugur tapa
Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group, og Hannes Smárason, forstjóri félagsins, hafa báðir tapað stórum fjárhæðum á félaginu frá byrjun október.MYND/HARI

FL Group var það félag sem lækkaði mest í Kauphöllinni í gær eða um 5,53%. Gengi félagsins hefur verið afleitt að undanförnu og flestar stærri fjárfestingar þess hafa lækkað verulega að undanförnu.

Til að mynda hefur rúmlega 30% hlutur FL Group í Glitni rýrnað um 19,1 milljarð á þessum 60 dögum sem liðnir eru frá því að október gekk í garð.

Hlutur Hannesar Smárasonar, stærsta hluthafa og forstjóra félagsins, hefur rýrnað um 7,6 milljarða frá 1. október en hann á rúmlega 20% hlut í gegnum eignarhaldsfélag sitt Oddaflug BV. Sömuleiðis hefur 15,85% hlutur Baugs Group lækkað um 5,8 milljarða.

Gnúpur tapar á tveimur stöðum
Viðskiptafélagarnir Magnús Kristinsson og Kristinn Björnsson hafa séð hluti sína í tveimur stærstu eignunum, Kaupþingi og FL Group, lækka hratt að undanförnu.MYND/PÁLL BERGMANN

Fjárfestingafélagið Gnúpur, sem er í eigu Magnúsar Kristinssonar, Kristins Björnssonar og Þórðar Más Jóhannessonar, fer heldur ekki varhluta af lækkunum á markaði. Félagið er í hópi stærstu hluthafa bæði í Kaupþingi og FL Group og hefur virði hluta þeirra í félögunum samanlagt rýrnað um 11,9 milljarða frá 1. október, 6,3 milljarða í FL Group og 5,6 milljarða í Kaupþingi.

Magnús og Kristinn eru aðaleigendur Gnúps og eru hvor um sig með 46,5% hlut. Eignir þeirra í FL Group og Kaupþing koma að stærstum hluta í gegnum sölu þeirra á hlut sínum í Straumi-Burðarás sumarið 2006 til FL Group. Gengi bréfanna í félögunum tveimur hefur ekki enn náð því gengi sem Gnúpsmenn fengu sín bréf, á 18,4 í FL Group og 748 í Kaupþingi.

Afmælisárið endar illa
Gengi bréfa Eglu Invest, sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, hefur lækkað hratt frá 1. október. Alls hefur hlutur hans rýrnað um 15,5 milljarða. MYND/GVA

Athafnamaðurinn Ólafur Ólafsson byrjaði árið með látum þegar hann hélt upp á fimmtugsafmæli sitt í janúar og fékk sjálfan Elton John til að skemmta gestum fyrir eina milljón dollara.

Ekki virðist árið ætla að enda jafnvel og það byrjaði því 9,88% hlutur Ólafs í Kaupþingi hefur rýrnað um 15,5 milljarða á þeim 60 dögum sem liðnir eru frá því að 1. október rann upp.

Eignarhluti Ólafs í Kaupþingi varð til þegar Kaupþing og Búnaðarbankinn sameinuðust árið 2003. Ólafur var þá einn af aðaleigendum Búnaðarbankans eftir einkavæðinguna umdeildu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×