Innlent

Eidesgaard boðar færeyska sendiskrifstofu í Reykjavík

Jóannes Eidesgaard. Staðfesting á mikilvægi Hoyvíkursamnings.
Jóannes Eidesgaard. Staðfesting á mikilvægi Hoyvíkursamnings. MYND/GVA

Sjálfstæð sendiskrifstofa Færeyja verður fljótlega opnuð í Reykjavík. Frá þessu greindi Jóannes Eidesgaard, lögmaður Færeyinga, í samtali við Fréttablaðið.

Nýja sendiskrifstofan verður í eigin húsnæði í miðborg Reykjavíkur, fjarri danska sendiráðinu, og þar verður aðeins flaggað með færeyska fánanum. Sendifulltrúinn verður þó hluti af dönsku utanríkisþjónustunni, enda gæti hann ella ekki haft formlega stöðu sendierindreka. „Þetta er alveg nýtt fyrirkomulag sem ekki hefur verið prófað áður,“ segir Eidesgaard. Færeyskir sendifulltrúar séu í Lundúnum og Brussel, en í báðum borgum hafi þeir aðsetur í sendiráði Danmerkur.

Eidesgaard segir annars að opnun íslensku aðalræðisskrifstofunnar sé staðfesting á því gagnkvæma mati að Hoyvíkursamningurinn svonefndi, sem tók gildi í nóvember síðastliðinn og gerir Færeyjar og Ísland að einu samræmdu markaðssvæði, sé báðum löndum mikilvægt. Færeyingar álíti samninginn „fyrsta raunverulega skref okkar út í hinn hnattvædda heim,“ segir lögmaðurinn. „Þegar Ísland opnar aðalræðisskrifstofu sína í Þórshöfn þá segir það okkur að Íslendingar meti þetta samband einnig mikils.“

Opnun skrifstofunnar verður fagnað með dagskrá í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í dag, en meðal viðstaddra verða Eides­gaard lögmaður, Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra, nýi aðalræðismaðurinn Eiður Guðnason og fulltrúar úr utanríkismálanefnd Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×