Viðskipti innlent

FIH dótturbanki Kaupþings ætlar á netbankamarkaðinn

FIH dótturbanki Kaupþings í Danmörku ætlar að opna nýja netbanka þar í landi á næsta ári. Þessir bankar bjóða upp á hærri vexti á innlán en venjulegir bankar í landinu og eru einkum hugsaðir fyrir smásölumarkaðinn. Kaupþing hefur komið samskonar bönkum á fót í Svíþjóð og Finnlandi.

Viðskiptasíður danskra blaða fara mikinn um Kaupþing banka í gær og í morgun. Í Berlingske er m.a. sagt að hátt skuldabréfaálag hjá bankum valdi ótta um að hann stefni í gjaldþrot og því sé hann á höttunum eftir meiru af innlánum. Börsen.dk. er með fyrirsögnina „Kaupþing gerir eins og Northern Bank" á síðu sinni í morgun. Eins og kunnugt er var Northern Rock naumlega bjargað frá gjaldþroti nýlega.

Börsen segir að Kaupþing Banki sé að fara sömu leið og Northern Rock með því að auka innlán sín þar sem lánsfé sé orðið svo dýrt og erfitt að nálgast það. Northern Rock er með um 50.000 danska viðskiptavini í gegnum netbanka sinn í landinu.

Börsen vitnar í Lars Johansen forstjóra FIH um netbankaáformin og segir Lars m.a. að þeir séu að fylgja fordæmi Kaupþings í Svíþjóð og Finnlandi með netbankaáform sín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×