Viðskipti innlent

Skipti hf. fær frest á skráningu framyfir áramót

Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir að ráðuneytið muni taka jákvætt í beiðni Skipti hf., móðurfélags Símans, um að fresta skráningu félagsins í kauphöllina. Verður ákvörðunin um það tekin öðru hvorum megin við helgina.

Samkvæmt samningi sem gerður var þegar Síminn var seldur á sínum tíma áttu 30 prósent af hlutafénu að fara á almennan markað. „Kauphöllin hefur sagt að vegna óvissu um kaup Skipta á slóvenska símanum sé betra að fresta skráningunni og við teljum sjálfsagt að taka tillit til þessa," segir Árni í samtali við Vísi.

Fram kemur í máli fjármálaráðherra að ekki verði gefinn langur frestur til að koma málinu á hreint. Skipti hf. muni í mesta lagi hafa tvo til þrjá mánuði frá áramótum til að skrá félagið í kauphöllina og uppfylla skilyrði samningsins um að almennum fjárfestum verði gert kleift að kaupa 30 prósent af hlutafénu.

 

 

Í tilkynningu sem var að berast frá fjármálaráðuneytinu segir að fallist sé á beiðni Skipti hf. og skuli skráningu vera lokið fyrir marslok 2008 í stað ársloka 2007 eins og kveðið var á um í samningi Skipta ehf. og íslenska ríkisins frá 5. ágúst 2005.

"Ákvörðun fjármálaráðherra byggir á því að þátttaka Skipta hf. í söluferli slóvenska símafélagsins, Telekom Slovenije, geri það að verkum að ekki sé eins og sakir standa unnt að uppfylla þau skilyrði sem lög setja um að lýsing skuli innihalda þær upplýsingar sem með hliðsjón af eðli útgefandans og verðbréfanna séu nauðsynlegar fjárfestum til þess að þeir geti metið eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, afkomu og framtíðarhorfur útgefanda sem og þau réttindi sem fylgja verðbréfunum," segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×