Viðskipti innlent

Askar stofna sjóð og opna skrifstofu á Indlandi

Stjórnendur Askar Capital hf. og indverska fjárfestingafyrirtækisins Skil Group tilkynntu í dag á Indlandi að fyrirtækin hefðu ákveðið að standa sameiginlega að stofnun framtaksfjármagnssjóðs.

Sjóðurinn mun fjárfesta í fjölbreyttum og spennandi verkefnum á Indlandi og annars staðar í Suð-Austur Asíu. Bæði fyrirtækin munu leggja fram töluvert fjármagn í sjóðinn.

Askar Capital tilkynnti einnig um opnun á skrifstofu í fjármálahverfi Mumbai (Bombay) á Indlandi. Fjórir hafa þegar verið ráðnir og því fer starfsemi skrifstofunnar þegar á fullt.

Sjóðurinn mun starfa á fjölbreyttum sviðum og mun einkum fjárfesta í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. „Við hjá Askar erum sannarlega ánægð með samstarf okkar við Nikhil Gandhi og Skil Group," segir Dr. Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Askar Capital. "Þau hafa verið og eru frumkvöðlar á þessu svæði og mikil þekking þeirra og reynsla mun styrkja starfsemi okkar."

Nikhil Gandhi, stjórnarformaður Skil segir að staðfesta Askar til að sinna verkefnum á Indlandi er mjög ánægjuleg. Askar Capital hefur áorkað miklu á mjög skömmum tíma og samstarf okkar mun byggja á þessari velgengni.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, var við opnun skrifstofunnar ásamt viðskiptasendinefnd frá Íslandi. Pavan Bakshi framkvæmdastjóri Askar Capital á Indlandi sagði að Askar er þegar orðinn þátttakandi í fjárfestingum á sviði fasteigna, innviðauppbyggingar og framtakfjármagns, en þetta eru einmitt lykilatriði í framtíðarvexti Askar Capital.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×